Kia Stinger kom á sjónarsviðið árið 2018 á Delphi Auto Expo bílasýningunni og kom til landsins sama ár. Keppti tveggja lítra útgáfa hans til úrslita í flokki stærri fjölskyldubíla í vali á bíl ársins 2019. Okkur bauðst hins vegar GT útfærslan til reynslu yfir páskana og hún er mun öflugri eða 370 hestöfl. Í þeim bíl fæst bæði afl og búnaður ásamt sjö ára ábyrgð Kia sem gerir þennan pakka vel þess virði að skoða betur.

Þar sem að hönnun bílsins er orðin tveggja ára gömul er ekki úm nýjustu kynslóð upplýsingaskjás að ræða eins og í Xceed til að mynda. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Það sem fyrst vekur athygli við bílinn er útlitið sem er ansi verklegt svo ekki sé meira sagt. Að vísu finnst manni það stinga í stúf að sjá Kia merki á jafn verklegum bíl en ljóst er að hönnuðir Kia hafa farið alla leið í hönnun á þessum bíl. Satt best að segja þarf að fara í mun dýrari útgáfur af bílum eins og Mercedes-Benz CLA 45 AMG til að fá sambærilegt afl, stærð og búnað. Að innan er bíllinn vel búinn með rafstillanlegum leðursætum með loftkælingu. Sætin eru mjög þægileg og manni líður vel á bak við stýrið í þessum bíl. Þótt setna sé la´g er ekki óþægilegt að koma sér fyrir því að hurðir bílsins er stórar og aðgengi gott. Plássið er líka nægjanlegt og fer vel um fjóra fullorðna í bílnum en þröngt yrði um þann fimmta í miðjusæti. Prófunarbíllinn var búinn rafdrifinni sóllúgu sem skerti aðeins höfðuðrými en það ætti þó ekki að há neinum nema þeim sem eru hærri í loftinu. Bíllinn er líka búinn skjá sem kastar upplýsingum uppá framrúðuna sem er kostur í öflugum sportbíl sem þessum.

Fjörðun bílsins er vel stillt en bremsur hefðu mátt vera aðeins öflugri.

Að aka þessum bíl er skemmtileg upplifun og sameinast það í bæði, afli, aksturseiginleikum og ekki síður þægindum. Vélin er V6 með tveimur forþjöppum og skilar 370 hestöflum sem er nóg til að koma bílnum í hundraðið á aðeins 4,9 sekúndum. Átta þrepa sjálfskiptingin er af hefðundinni gerð sem virkar vel í þessum bíl og er auðveld í notkun. Þar sem bíllinn er einnig með afturhjóladrifi hefur hann marga eiginleika sportbíls en samt vottar fyrir undirstýringu sem er kannski eðlilegt þegar það er haft í huga að bíllinn er tæp 1.800 kg. Fjöðrunin er mátulega stíf án þess að það komi niður á þægindum bílsins. Að framan eru McPherson ströttar með jafnvægisstöng og fjölarma fjöðrun að aftan. Það var kannski helst að maður yrði var við að bremsur bílsins væru ekki alveg að valda hlutverki sínu þegar reynt var á þær í einhvern tíma, en þær vildu hitna talsvert. Hægt er að slökkva á spól- og skrikvörn í tveimur áföngum á GT bílnum sem gerir hann skemmilegri í brautarakstri. Annars er þægilegt að keyra bílinn í öllum hefðbundnum akstri ef slökkt er á akreinavara en hann var full afskiptasamur og tók óþarflega snemma í stýri bílsins.

Vélin er 3,4 lítra V6 vél með tveimur forþjöppum og skilar svo sannarlega sínu.

Keppinautar Kia Stinger GT eru bílar eins og BMW 440i Gran Coupe, Audi A5 Sportback og Mercedes-Benz CLA 45 AMG. Engar upplýsingar um verð er að finna fyrir BMW eða Audi bílana á heimasíðum umboðanna en grunnverð CLA 45 AMG er 14.390.000 kr svo það munar taslvert miklu í verði, auk þess sem að Stingerinn er aðeins stærri bíll. Við það bætist að Kia kemur með sjö ára ábyrgð sem verður að teljast kostur í svona vel búnum sportbíl, sem Kia Stinger GT svo sannarlega er.

Kostir: Afl, verð, stillingar á spólvörn
Gallar: Höfuðrými með sóllúgu, akreinavari, bremsur

Kia Stinger GT
Grunnverð:                 10.790.777 kr
Rúmtak:                      3.342 rsm
Hestöfl:                       370
Tog:                             510 Newtonmetrar
0-100 km:                    4,9 sek.
Hámarkshraði:            270 km/klst
Eyðsla 100 km:            10,6 lítrar
L/B/H:                         4.830/1.870/1.400 mm
Hjólhaf:                       2.905 mm
Veghæð:                     130 mm
Eigin þyngd:                1.789 kg
Farangursrými:           406 lítrar