Tengiltvinnbílar flæða nú inn á íslenska bílamarkaðinn og það er ekki skrýtið þegar strangar mengunarreglur Evrópusambandsins eru hafðar í huga. Nýjasti meðlimurinn í hópi tengiltvinnbíla er Volvo XC40 Recharge PHEV sem kemur með 81 hestafla rafmótor og 10,7 kWh rafhlöðu ásamt þriggja strokka, 178 hestafla bensínvél. Þar sem að CO2 á hverja 100 km er aðeins 41 gramm fer hann í lágan tollflokk og býðst á aðeins 5.350.000 kr. grunnverði.

Að innan er bíllinn nákvæmlega eins í búnaði en í mælaborði má sjá upplýsingar fyrir hleðslu og drægi. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Volvo XC40 tengiltvinnbíllinn er fyrsti framleiðslubíll Volvo til að nota Recharge í nafninu en 100% rafdrifin útgáfa er væntanleg vorið 2021 til Íslands. Hann ber líka nafni Recharge svo ekki má rugla þeim saman. Bæði bensínvélin og rafmótorinn virka á framdrifið gegnum sjö þrepa sjálfskiptingu. Öflugasta útgáfan er 258 hestöfl en hún skilar honum í hundraðið á 7,3 sekúndum. Það er erfitt að greina muninn á XC40 með eða án rafmagni og það eina sem aðgreinir hann að utanverðu er opið fyrir hleðsluna að framanverðu. Það sama á sér stað innandyra og meira að segja farangursrýmið er jafnstórt og í hefðbundnum XC40. Ástæðan er einföld því að bæði rafmótor og bensínvél eru í framenda bílsins, og rafhlaðan í miðjustokkinum.

Bensínvélin ásamt rafmótornum eru frammí bílnum og því þarf ekki að fórna plássi úr innanrými bílsins.

Það eru fjórar akstursstillingar á bílnum og hann ræsir sig sjálfkrafa í Hybrid stillingu. Það er líka Pure stilling sem gerir manni kleift að keyra eingöngu á rafmagni og drægi hans þannig er uppgefið 51-56 km. Við prófun bílsins var hann fullhlaðinn eina nóttina og fylgst með drægi hans á rafmagninu sem dugði í þrjár styttri ferðir innanbæjar erða 38 km alls. Tekið skal fram að hiti dagsins var aðeins undir frostmarki. Í Power stillingu er bíllinn mjög frísklegur og aflmikill þegar báðir mótorar skila sínu. Þegar bíllinn tekur af stað á rafmagninu einu saman og gefið er í strax á eftir er vélin ekki að koma eins mjút inn og maður vildi. Best er þá að setja hann í Power stillinguna svo að vélin sé tilbúin strax. Þegar bíllinn er búinn með rafmagnið er aflið minna og ekki furða þar sem að bíllinn er tæp 1.750 kg í tengiltvinnúgáfunni. Tilfinning í bremsupedal er þannig að þegar byrjað er að hemla er allt eðlilegt í byrjun en svo kemur bremsuhleðslan inn og þá eykst átakið skyndilega. Þetta getur truflað aðeins þann sem er óviðbúinn og þarf bílstóri að vera viðbúinn til að bíllinn hægi ekki skyndilega á sér.

Það að bíllinn sé aðeins búinn framdrifi getur háð honum þegar komiðer í þungan snjó eins og hér sést.

Helstu samkeppnisaðilar hans eru BMW X1 25e og Lexus UX. Lexus UX kostar frá 7.190.000 kr og BMW X1 er á 7.290.000 lr svo óhætt er að segja að um gott verð sé að ræða í Volvo bílnum. Meira að segja öflugasta útgáfa hans í R Design útfærslu er á 6.150.000 kr sem er ansi gott verð fyrir bíl með Nappa leðri, sportfjöðrun og R Design útlitspakka.

Kostir: Aflmikill, góð sæti, verð
Gallar: Kvikur í bremsu, pláss í aftursætum

Hleðslutengi er að framanverðu og heimahleðslusnúra fylgir með bílnum.

Volvo XC40 PHEV T4 Momentum
Rúmtak:                      1.477 rsm
Hestöfl:                       211
Tog:                             405 Newtonmetrar
Upptak 0-100 km:       7,3 sek
Eigin þyngd:                1.741 kg
Eyðsla:                         2l/100 km
Drægi á rafhlöðu:        51-56 km
CO2:                            41 g/km
Farangursrými:           460 lítrar