Hyundai er á leiðinni með rafdrifinn jeppling byggðan á 45 tilraunabílnum sem sýndur var á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra. Bíllinn er nánast tilbúinn fyrir framleiðslu og nýlega náðust njósnamyndir af honum í dulargervi við prófanir á Nurburgring. Þessi nýi rafjepplingur mun keppa við rafbíla eins og Volkswagen ID.4 og Skoda Enyak.

Tilraunabíllinn byggði mikið á útliti fyrsta bíls Hyundai, en hann hét Pony Coupe og kom fram árið 1974. Nýi bíllinn mun verða sá fyrsti til að vera byggður á nýjum breytanlegum E-GMP undirvagni Hyundai sem er hannaður fyrir rafbíla. Þessi undirvagn verður í framtíðinni fyrir alla rafbíla frá Hyundai, Kia og Genesis. Myndirnar sýna að bíllinn mun líkjast nokkuð tilraunabílnum í útliti þótt að hann sé ekki með alveg eins ýktar línur. Hann verður með 800 volta rafkerfi eins og Porsche Taycan að öllum líkindum sem þýðir að hann getur notað öflugri hraðhleðslustöðvar. Markið er sett á 500 km drægi og styttri hleðslutíma en von er á bílnum á markað á næsta ári.