Síðan að Highlander var kynntur árið 2000 hefur hann aðeins verið í boði í Norður-Ameríku, Japan og Ástralíu. Fjórða kynslóð hans verður kynnt á næsta ári og verður kynntur fyrir Evrópumarkað, og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þá einnig á Íslandi.

Fjórða kynslóð Highlander verður byggður á GA-K undirvagninum sem er einnig undir Camry og RAV4 en það er einmitt þess vegna sem hægt verður að bjóða hann í Evrópu. Bíllinn er mitt á milli RAV4 og Land Cruiser í stærð og mun keppa við bíla eins og Skoda Kodiak og Peugeot 5008. Highlander er í raun og veru lengri en Land Cruiser eða 4.950 mm og með alvöru farangursrými sem rúmar 658 lítra af farangri. Hann er sjö sæta og hægt er að stækka farangursrýmið í 1.909 lítra. Hann verður með 2,5 lítra, fjögurra strokka bensínvél eins og RAV4 og verður með rafmótor fyrir bæði fram- og afturdrif í stað afturöxuls eingöngu. Samtals mun hann skila 241 hestafli. Vænta má þess að bíllinn verði kynntur á Íslandi seint á næsta ári en ekkert hefur verið gefið upp um verð eða þess háttar ennþá.