Sérstök deild innan Land Rover er að þróa og prófa V8 útgáfu af Defender sem koma mun á markað seint á næsta ári. Nást hafa njósnamyndir af bílnum, meðal annars ásamt Mercedes-Benz AMG G63 sem er jeppinn sem hann myndi keppa við.

Á myndinni sést meðal annars í rauðar bremsudælur og fjórfalt pústkerfi sem bendir til að um öflugan bíl sé að ræða. Samkvæmt skráningarupplýsingum bílnúmersins er bíllinn með fimm lítra vél sem segir okkur að sama öfluga V8 vélin og í Range Rover Sport SVR sé undir húddinu. Vélin er smíðuð af Ford og skilar yfir 500 hestöflum. Búast má við á seinni stigum að bíllinn verði búinn 4,4 lítra V8 vél frá BMW.