Ný S-lína er væntanleg frá Mercedes-Benz árið 2021 en nýjar njósnamyndir sem birtust á Instagram nýlega hafa sýnt bílinn í allri sinni dýrð. Samkvæmt þeim er bíllinn ekki mikið breyttur utandyra en þeim mun meira í innanrými.

Ný innrétting kemur í næstu S-línu með nýju MBUX kerfi.

Það var ljósmyndafyrirtækið Coche Spias á Spáni sem tók myndirnar en ekki er vitað hvar bíllinn var þegar myndin var tekin af honum. Þær sýna forútgáfu S-línunnar með aðeins lítilli felurönd fyrir ofan ljósin. Grillið er að vísu meira upprétt og áberandi og ljósin minni en áður á þessu flaggskipi Mercedes. Afturljósin eru meira breytt sem hæfa meira mikilli breidd bílsins. Að innan er bíllinn mikið breyttur í tæknilegum skilningi. Stýrishjólið er endurhannað með mjórri pílárum til að hefta síður útsýni á stóran upplýsingaskjá, sem er festur beint á stýrishúsið. Til hægri er stór upplýsingaskjár í miðjustokki sem kemur í staðin fyrir núverandi MBUX kerfi. Myndirnar eru af bíl með afþreyingarkefi í aftursætum sem sést vel á einni myndinni. Bíllinn verður frumsýndur seint á þessu ári og er væntanlegur í sýningarsali snemma árs 2021 en líklega ekki hérlendis fyrr en næsta sumar, ef einhver mun kaupa slíkan bíl hérlendis.