Í nýlegu myndbandi af nýjum Ford Bronco í dulargervi sést jeppinn reyna við drulluslóða í skóglendi. Í einu atriðinu er hann að taka þrönga beygju í kringum tré og þar tóku glöggir jeppaáhugamenn eftir því að bíllinn virðist bjóða uppá það sem kallað er framspól eða Front dig á ensku. Það þýðir að innra afturhjólið læsir sér í smástund meðan að framhjólin spóla til að framendinn dragist til. Þessi búnaður er reyndar í boði í Toyota Land Cruiser 200 þegar hann er í skriðgír. Það sem gerir þetta samt spennandi fyrir Ford er að þetta er búnaður sem aðalsamkeppnisaðili þeirra, Jeep hefur ekki.