Þótt stundum sé ekki allt að marka sem Elon Musk segir vakti athygli nokkuð sem hann sagði í þætti Jay Leno á dögunum þegar grínistinn góðkunni reynsluók Cybertruck pallbílnum. Þar talaði Elon Musk um SpaceX pakkann sem í boði verður á Roadster sportbílnum og inniheldur meðal annars þrýstiloftsstúta sem eiga að geta aukið upptak bílsins og jafnvel bætt brautartíma hans. Kallaði hann þá kaldgasstúta sem verða staðsettir bak við númeraplötuna og jafnvel á hliðum hans líka. Loks sagði hann að vegna áherslu Tesla Á Cybertruck pallbílinn yrði framleiðslu á Roadster seinkað til 2022. Áður hefur Elon sagt að tesla Roadster sé aðeins 1,9 sekúndur í hundraðið og með 1000 km drægi svo að forvitnilegt verður að sjá hvort það muni standast.