BMW hefur frumsýnt nýja kynslóð 4-línunnar með róttækri breytingu á bílnum eins og risastóru grilli og endurhönnuðum ljósum. Bíllinn keppir við sportlega fjölskyldubíla eins og Mercedes-Benz C-línu Coupé og Audi A5, en með nýja bílnum er verið að aðgreina hann útlitslega frá 3-línunni, en þegar 4-línan kom fyrst fram á sjónarsviðið var bíllinn lítið annað en breyting á nafni og fjölda hurða.

Ný 4-lína deilir áfram undirvagni með 3-línunni en breytingar á yfirbyggingu eru augljósar. Bíllinn er breiðari og hann kemur á M sportfjöðruninni sem staðalbúnaði. Hingað til hefur nýrnagrillið alltaf verið hærra en það er breitt en nú er það meira á þverveginn. Nýja 4-línan er 128 mm lengri en fyrirrennarinn og hjólhafið er líka 41 mm lengra. Endurhönnuð ljósin er sexhyrningslaga og eru díóðuljós en Laserlight ljósin eru fáanleg sem aukabúnaður. Afturljósin eru stærri og meiri um sig til hliðanna en undir honum að aftan er tvöfalt pústkerfi og lítill loftdreifari. Að innan er bíllinn mjög svipaður 3-línunni með sama 8,8 tommu upplýsingaskjánum og stafrænu mælaborði að hluta. Þó er hægt að panta bílinn með stærri upplýsingaskjá. Allar dísilvélarnar koma nú með 48V tvinntækni og einnig í sex strokka vélinni í 440i bílnum. Minnsta vélin er tveggja lítra bensínvél með forþjöppu og er hún án tvinntækni. Sú vél skilar 181 hestafli og 300 Newtonmetra togi. Vélbúnaðurinn í 440i bílnum er alls 369 hestöfl og togið 500 Newtonmetrar sem dugir til að taka hann í hundraðið á 4,5 sekúndum. Sala á bílnum hefst í haust en hérlendis mun líklega þurfa að sérpanta hann.