Önnur kynslóð Opel Mokka er nú kominn fyrir sjónir almennings og með miklum útlitsbreytingum. Stærstu fréttirnar eru þó þær að hann verður einnig fáanlegur sem 100% rafbíll um leið og hann kemur í sýningarsali.

Ný kynslóð Opel Mokka er kominn með alveg nýjan framenda og kallast sú hönnun Vizor. Búast má við því útliti á næstu bílum frá Opel og Vauxhall merkinu. Vizor framendinn einkennist af vængjalaga dagljósum og Matrix díóðu aðalljósum. Yfir hliðargluggum er krómlisti sem að aðskilur þakið frá gluggunum og liggur listinn að afturnenda þar sem að afturljós með svipuðu lagi er að finna. Mokka er 125 mm styttri en áður og mun vera þægilegri í borgarakstri fyrir vikið. Búið er að auka hjólhaf hans um 2 mm en stytta umtalsvert skögun fram- og afturenda. Fyrir vikið er plássið áfram jafngott og sama 350 lítra farangursrými og áður. Að innan fær bíllinn nýtt Pure Panel mælaborð ,eð tveimur upplýsingaskjám. Undirvagn nýs Mokka er CMP undirvagninn frá PSA sem er einnig undir Peugeot 2008. Fyrir vikið er bíllinn 120 kílóum léttari en áður. Í boði verða þriggja strokka bensínvélar og fjögurra strokka dísilvélar en bíllinn er hér frumsýndur í rafútgáfu sinni. Þar ern hann með 134 hestafla rafmótor og 50 kWst rafhlöðu sem gefur honum 320 km drægi.