MG bílamerkið er nýkomið til landsins og fyrsti bíllinn í merkinu hefur verið kynntur á Sævarhöfðanum. Samtímis berast fréttir af því erlendis frá að MG sé á leiðinni með rafdrifinn sportbíl á markað í Evrópu árið 2021. Útlínumyndir af bílnum í einkaleyfisumsókn voru sýndar í tímaritinu Autocar og samkvæmt þeim er hann talsvert byggður á E-Motion hugmyndabílnum sem frumsýndur var árið 2017.

Bíllinn hefur breyst aðeins síðan að hann var sýndur í Shanghai fyrir þremur árum síðan. Framendinn er líkari Aston Martin og afturljósin eru talsvert breytt líka. Lítið er vitað um hvað leynist undir yfirborðinu en hugmyndabíllinn var með vængjahurðir og fjögur sæti. Heyrst hefur að rafmótorinn sé hannaður hjá framleiðendanum og að bíllinn sé innan við fjórar sekúndur í hundraðið. Drægi bílsins mun samkvæmt sömu upplýsingum vera um 500 km. Sportbíll eins og þessi er talsvert frá þeirri línu sem MG býður uppá í dag, sem er meira í vinsælli gerðum bíla eins og jepplinga og smábíla. Maður getur ekki ennð en leitt hugann að því hvort að einfaldari rafdrifinn sportbíll, jafnvel í gamla stílnum væri einmitt það sem að MG merkið ætti að bjóða uppá.

Að sögn Lofts Ágústssonar, markaðsstjóra BL koma fleiri nýjar gerðir af MG strax á næsta ári. “SAIC sem er eigandi merkisins hafði samband við okkur af fyrra bragði og fulltrúar okkar fóru út til Amsterdam, þar sem höfðuðstöðvarnar eru. Það sem vakti athygli okkar var hve uppsetningin á sölunetinu var einföld og markviss. Þeir leggja áherslu á að hafa öllu jafnan bíla til afgreiðslu af lager frá Rotterdam sem við getum leitað í á allt niður í tvær vikur. Þeir eru með þessar tvær gerðir sem eru bara með fastan fyrirfram valinn búnað.Þeir eru líka vel útbúnir og litirnir eru einungis fimm.” Að sögn Lofts hefur MG merkið fengið gæoðar viðtökur í Noregi en sala hófst á þeim í byrjun árs. Þar hafa selt vel yfir 500 bílar. Auk MG ZS selur merkið smábílinn MG3 og stærri jeppling sem kallast HS, auk sportbílsins sem væntanlegur er á næsta ári.