Hókus pókus, ég breyti þér í jeppling, gætu hönnuðir Citroen hafa sagt. Búið er að frumsýna nýjan og endurhannaðan Citroen C4 í öllum sínum útgáfum. Verða bæði dísil-o g bensínvélar í boði ásamt rafútgáfu sem fær nafnið e-C4. Þar sem að markaður fyrir hlaðbaka hefur farið minnkandi valdi Citroen þá leið að breyta útliti hans í meira jepplinglag. Þannig keppir hann frekar við Ford Focus Active til að mynda. Bíllinn er nokkuð breyttur útlitslega og greinilegt að hönnunin kemur frá C5 Aircross en einnig 19_19 tilraunabílnum. Sést það best á hönnun fram- og afturljósanna. Eini munurinn á rafútgáfunni verða bláar merkingar fyrir e-C4 merkið.

Stærð hins nýja Citroen C4 er 4.360 mm á lengd, 1.800 mm á breidd og 1.525 mm á hæð sem er talsvert stærri en VW Golf sem var hans aðal keppinautur. AÐ innan má sjá endurhannað mælaborð með nýjum 10 tommu upplýsingaskjá og miðjustokki. Að sögn Citroen verða 16 hólf víðsvegar í bílnum með auka 39 lítra plássi. Bensínútgáfur verða með 1,2 lítra þriggja strokka vél sem skilar 99, 128 eða 153 hestöflum. Aðeins ein útgáfa dísilvélar mun skila 101 hestafli. Í boði verða sex gíra beinskipting og átta þrepa sjálfskipting. Rafútgáfan verður með 50 kWst rafhlöðu og 135 hestafla rafmótor fyrir framdrifið. Upptakið í 100 km hraða verður 9,7 sekúndur og drægið 350 km. Fjöðrunin verður eitt af aðalsmerkjum bílsins en hún er vökvafjöðrun fyrir bæði þjöppu og endurslag og á að minnka hreyfingu yfirbyggingar talsvert yfir ójöfnur. Sala á nýjum Citroen C4 hefst í janúar í Evrópu en ekki hefur verið tilkynnt hvenær bíllinn er væntanlegur hingað til lands.