Þeim fer ört fækkandi bílunum í minnsta flokki smábíla og er það ekki síst hertum mengunarreglum í Evrópu um að kenna. Hljómar öfugsnúið en þetta er staðreynd engu síður því að framleiðendum finnst ekki lengur borga sig að þróa bíla af þessari stærð. Sem betur fer hugsa ekki allir þannig og Hyundai er einn þessara frasmleiðenda. Hann kynnir nú með stolti sportlegan bíl sem lítur út fyrir að vera nokkuð snaggaralegur.

Þótt innanrými sé einfalt er þar að finna stóran upplýsingaskjá og tæknivætt aðgerðarstýri.
MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Að prófa smábíl er talsvert eins og að máta skó, hann má ekki vera of þröngur. Því er fyrsta mál á dagskrá að gera einmitt það og máta öll sæti. Satt best að segja skorar hann nokkur stig þar, er þokkalega rúmgóður frammí og með pláss í aftursætum sem kemur þægilega á óvart. Munar þar mest um gott fótapláss fyrir þennan flokk bíla og vel viðunandi höfuðrými. Auðvitað er miðjusæti ekki fyrir fullorðinn en við erum líka að tala um minsstu gerð smábíla. Farangursrými er ekki stórt en stenst samanburð við samkeppnina, en með því að fella niður aftursæti og hækka gólfið fæst sléttur flötur fyrir stærri hluti. Útsýni er óvenjugott sem er fátítt í bílum í dag. Prófunarbíllinn var af Premium útfærslu sem er óvenju vel búinn bíll en það hefði mátt setja aðdrátt á stýri. Staðsetning fyrir upphitun á sæti og stýri hefði mátt vera betri en hún er fyrir framan gírstöng. Einföld gerð lofttúða fyrir miðstöð minnir einna helst á útfærsluna í áttatíuogsex módelinu á Toyota Land Cruiser, einfaldar í notkun og virka.

Farangursrými er 252 lítrar sem er viðunandi en takið eftir að engin bönd eru til að halda uppi spjaldinu undir glugganum.

Þegar rætt er um aksturinn er bíllinn ekki gallalaus. Hann er frekar kraftlaus og vantar aðallega tog enda upptakið eftir því. Segja má að sportlegt útlitið er ekki alveg í takti við aflið. Aflleysið minnir einna helst á upptakið í Fiat Uno í gamla daga. Bíllinn er þó ekki af öllu slæmur og hann liggur mjög vel í gegnum beygjur. Hann lyftir ekki afturdekki eins og margur smábíllinn þegar komið er að mörkum grips.. Gírkassinn er þéttur og góður og stýrið nákvæmt og létt í notkun.

Litla þriggja strokka vélin er einu númeri of lítil og vantar aðallega tog.

Því miður er framboð smábíla á Íslandi ennþá minna en í öðrum löndum Evrópu. VW Up er hér aðeins fáanlegur sem rafbíll og því ekki samanburðarhæfur. ÍsBand gefur ekki upp verð á Fiat 500 og Peugeot og Citroen bjóða ekki uppá systurbíla Aygo lengur. Toyota Aygo kostar frá 2.270.000 kr og verðið á Kia Picanto er enn betra en hann kostar frá 2.190.000 kr. Hætt við að verðið á Hyundai i10 fæli frá og þeir sem vilji kaupa bíl í þessum stærðarflokki fari frekar og fái sér systurbílinn Kia Picanto sem er 180.000 kr ódýrari og með tveggja ára ábyrgð til viðbótar.

Kostir: Vel búinn, fótarými afturí, liggur vel
Gallar: Lítið tog, verð, enginn aðdráttur á stýri

Grunnverð:                 2.350.000 kr   
Rúmtak:                      998 rsm
Hestöfl:                       67
Tog:                             96 Newtonmetrar
Eyðsla bl. ak:               5 l/100 km
CO2:                            114 g/100 km
Hámarkshraði:            145 km/klst
Hröðun 0-100 km:      14,6 sek
L/B/H:                         3.670/1.680/1.480 mm
Hjólhaf:                       2.425 mm
Eigin þyngd:                921 kg
Farangursrými:           252 lítrar