Með Nissan Ariya má segja að Nissan Leaf og Qashqai hafi runnið saman í einn bíl, en hann var frumsýndur á netinu í gær. Nissan kallar hann „Coupé Crossover“ sem þýða mætti sem sportjeppling. Hann er mjög líkur tilraunabílnum sem sýndur var í fyrra á bílasýningunni í Tokyo en hann er samt nær X-Trail í stærð en Qashqai. Að framan eru 20 díóðuljós allsráðandi og eiga að undirstrika að um 100% rafmagnsbíl sé að ræða.

Bíllinn kemur á nýja CMF-EV undirvagninum sem þróaður er í samstarfi við Renault og Mitsubishi. Hann verður boðinn bæði með framdrifi og fjórhjóladrifi. Grunngerðin með framdrifi eingöngu verður 215 hestöfl og fer í hundraðið á 7,5 sekúndum. Sú gerð verður með 65 kWst rafhlöðu sem dugar fyrir 375 km akstur samkvæmt WLTP staðlinum. Önnur framdrifsútgáfa verður með 90 kWst rafhlöðu og er 239 hestöfl, en hann fær 500 km drægi. Þrjár fjórhjóladrifsútgáfur verða í boði, 275 hestafla með 63 kWst rafhlöðu og 340 km drægi, en sú útgáfa er 5,9 sekúndur í hundraðið. Öflugasta útfærslan er 389 hestöfl og skilar 600 Newtonmetra togi. Hún fær 87 kWst rafhlöðu með 400 km drægi, en upptakið fer niður í 5,1 sekúndu í hundraðið. Von er á bílnum á markað í Evrópu seint á næsta ári.