Þá er hann kominn, bíllinn sem beðið hefur verið eftir. Land Rover Defender er bíll sem á mikla sögu á Íslandi, svo mikla að það mætti nánast segja að Ísland sé hans annað heimaland. Þess vegna er ný kynslóð Defender stórmál á íslenskan mælikvarða. Auðvitað verður hann borinn saman við gamla bílinn, annað er ekki hægt. Hann þarf að erfa allt það besta sem hann hafði upp á að bjóða, torfærugetu, fjöðrun og ekki síst hrjúfan sjarmörinn. Nýr bíll þarf líka að ná að gera það sem sá gamli gerði ekki, að ná til stærri kaupendahóps. Þegar slíkur bíll er prófaður væri það móðgun við bílinn að bjóða honum ekki uppá einhverjar vegleysur, og því varð rallvegurinn við Djúpavatn fyrir valinu.

Nýr Defender sækir útlit sitt að miklu leyti til eldri kynslóða þótt nýtískulegur sé.
MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Nýr Defender er byggður á alveg nýjum undirvagni sem kallast D7X og stendur X-ið fyrir Extreme. Bíllinn er svokallaður einrýmisbíll sem þýðir einfaldlega að grind er sambyggð yfirbyggingu og er smíðin að sögna tæknimanna Land Rover, þrisvar sinnum sterkari en hjá samkeppnisaðilunum. Tvær gerðir verða í boði til að byrja með, 90 gerðin sem er styttri og svo 110 gerðin sem við höfðum til reynsluaksturs.

Afturhlerinn opnast til hliðar sem gerir farangursrýmið aðgengilegt. Takið eftir ryðfríu boltunum sem halda hurðaspjaldinu og eru ekki úr plasti.

Að keyra bílinn er upplifun og þá sérstaklega á grófum vegi. Fyrir það fyrsta er Defender ekki eins og jeppi á malbiki, því að hann keyrir eins og lúxusbíll vegna byggingalags síns. Fjöðrunin er löng og gefur honum góða aksturseiginleika og þetta er bíll sem er alveg sama um hraðahindranir í hvaða formi sem þær eru. Stýrið gefur góða tilfinningu fyrir akstri hvort sem er á malbiki eða þegar reynt er á bílinn í torfærum og hann leggst ekki eins mikið í beygjurnar og maður hefði fyrirfram búist við. Auðvitað er hann undirstýrður þegar reynt er á hann í kröppum beygjum en það mátti nú líka búast við því í 2.250 kg bíl þar sem þyngdin er meiri að framan.

Misjafn malavegurinn á Djúpavatnsleið hefði allt eins geta verið prófunarbraut fyrir hönnun þessa bíls.

Dísilvélin er tveggja lítra og skilar vel sínu og átta þrepa sjálfskipting gerir sitt til að gera bílinn skemmtilegan í akstri og nokkuð fljótan af stað miðað við þyngd. Millihröðun gæti verið betri en þá er líka hægt að fá sér bílinn með stærri bensínvél ef það er málið. Bíllinn er hljóðlátur hvort sem er frá vél eða undirvagni og meira að segja á grófum vegi á nokkrum hraða eru ekki mikil læti innan í bílnum. Það má bjóða þessari fjöðrun talsvert án þess að bíllinn losi mikið samband sitt við veginn. Fjöðrun land Rover jeppa hefur alltaf þótt góð en með nýjum Defender nær hún nýjum hæðum.

Dísilvélin er þýðgeng og vinnur vel með sjálfskiptingunni.

Innanrými bílsins er ein af byltingunum við þennan bíl að mati greinarhöfundar. Fyrir það fyrsta er hún mjög rúmgóð og þægileg. Að stíga upp í bílinn er eins og að fara uppí alvöru jeppa og þarf jafnvel að lyfta sér aðeins á tá til að tylla sér inn. Við prófuðum bílinn reyndar ekki í sex sæta útgáfunni en ekki verður kvartað yfir plássi frammí þessum bíl. Nóg er af hólfum og hirslum en það besta er samt það sem einnig var til staðar í gamla bílnum, en það er opið hólf fyrir framan farþegasætið. Þegar ljósmyndarinn settist fyrst uppí bílinn skellti hann fullvaxinni Nikon vél með 400 mm linsu þangað og þar fékk hún að vera án nokkurs hnjasks, enda botninn með gúmmímottu. Það sama á við gólf bílsins sem er aðeins með gúmmímottum og engin upphækkun er við hurðar, sem þýðir að auðvelt verður að þrífa bílinn að innan.

Innréttingin er mátulega hrá með ljósum plastefnum á vissum stöðum en fágaðri útfærslu á mælum og upplýsingaskjá.

Hérlendis mun nýr Defender fyrst og fremst keppa við Toyota Land Cruiser 150 en einnig má bera hann saman við Jeep Wrangler eða Grand Cherokee, eða jafnvel Mercedes-Benz G-línu í ódýrari útgáfum. Til að bera hann saman við hinn vinsæla Land Cruiser þarf það að vera vel búin GX útgáfa sem kostar frá 12.250.000 kr með sjálfskiptingu. Jeep Wrangler með dísilvél kostar frá 12.890.000 kr og Grand Cherokee frá 11.990.000 kr á sérstöku tilboðsverði. Miðað við þessi verð er verðið á Land Rover Defender 110 ekki svo galið. Það má svo velta því fyrir sér hvort að það hafi ekki verið mistök að kynna bílinn í flottari útfærslum sínum fyrst. Svokölluð Base útgáfa verður kynnt seinna með stálfelgum til að mynda og einnig eigum við eftir að sjá verð fyrir 90 bílinn. Ljóst er þó að í samanburði við gamla Defenderinn verður bíllinn ljósárum frá því sem hann var. Hvernig það fer í hörðustu Defender aðdáendur af gamla skólanum verður að koma í ljós en með þessum nýja bíl er líka opnað á nýjan kaupendahóp sem hingað til hefur valið aðra jeppa, og þótt þeir Land Rover bílar sem hingað til hafa verið boðnir, einfaldlega of fínir fyrir sig.

Slaglöng fjöðrunin sést vel hér á myndinni og hún þolir vel að tekið sé á bílnum.

Kostir: Fjöðrun, hönnun innarýmis
Gallar: Undirstýrður, millihröðun

Land Rover Defender D240 SE 110
Grunnverð:                 12.790.000 kr.
Rúmtak:                      1.999 rsm
Hestöfl:                       240
Tog:                             430 Newtonmetrar
Upptak 0-100 km:       9,1 sek
Hámarkshraði:            190 km/klst
L/B/H:                         5.018/2.105/1.967 mm
Hjólhaf:                       3.022 mm
Farangursrými:           646 lítrar
Eigin þyngd:                2.248 kg
Dráttargeta:                3.500 kg
Snúningshringur:        12,8 metrar
CO2:                            199 g/km

Aflið í dísilbílnum er 240 hestöfl sem dugar honum vel hérlendis enda engar hraðbrautir hér.