Skoda hefur tilkynnt að Enyaq rafbíllinn verður frumsýndur þann 1. september næstkomandi á netinu. Bíllinn fer í sölu á næsta ári og er ætlað að keppa við bíla eins og Tesla Model Y og Kia e-Niro. Að sögn talsmanna Skoda mun hann hafa mikiðp innanrými eða svipað og í Skoda Kodiaq jepplingnum.

Skoda hefur einnig sagt frá ýmsu varðandi vélbúnað bílsins en hann verður byggður á Volkswagen MEB undirvagninum. Hægt verður að velja um afturhjóladrif eða fjórhjóladrif og um þrjár stærðir af rafhlöðum. Einnig verður hægt að velja um fimm mismunandi hestaflatölur. Hægt veður að hlaða bílinn á nýjustu 125 kW hleðslustöðvum sem að gerir það kleift að bæta 200 km við drægi bílsins á aðeins 15 mínútum. Drægi bílsins með stærstu rafhlöðunni verður 500 km. Eins og sjá má af myndunum er bíllinn líkur Vision iV tilraunabílnum í útliti með afturhallandi þaklínu. Fram- og afturendi er mjög svipaður Karoq í útliti. Að innan verður mjög stór snertiskjár í miðjustokki og er uppsetningin svipuð og í VW ID.3 þó að um nýtt mælaborð frá Skoda sé að ræða. Búast má við að hann deili sama vélbnúnaði og rafhlöðum og Volkswagen ID.4. Ef svo er, mun grunnútgáfan vera með 201 hestafla mótor við afturdrifið, og 82 kWst rafhlöðu. Kraftmesta útgáfan verður með tveimur mótorum og yfir 300 hestöfl.