Náðst hefur á mynd dulbúin útgáfa næsta rafbíls Kia sem akallast einfaldlega CV og er væntanlegt flaggskip merksins. Er bílnum ætlað að sýna næstu kynslóð raftækni Kia, meðal annars nýja hleðslutækni ásamt nýjum undirvagni sem er sérhannaður fyrir rafbíla. Kia CV byggir á grunni Imagine tilraunabílsins sem sýndur var á bílasýningunni í Genf í fyrra. Af því sem er sýnilegt á myndinni má sjá að bíllinn verður með svipuðu Coupé byggingarlagi og hlaðbaks afturenda og tilraunabíllinn. Kia CV verður fyrsti bíll Kia/hyundai til að nota E-GMP undirvagninn og fær hann rafhlöðu sem gefur honum um það bil 500 km drægi og 20 mínútna hleðslutíma. Mun rafbúnaðurinn notast við svipað 800 volta rafkerfi og er í Porsche Taycan sem notast getur við 350 kW hleðslustöðvar. Að sögn yfirmanns hjá Kia í Evrópu er einnig von á GT útgáfu sem mun geta keppt við Taycan Turbo S, með upptak undir þremur sekúndum í 100 km hraða.