Mercedes-Benz hefur látið frá sér meiri upplýsingar um væntanlega kynslóð S-línunnar og er greinilegt að hönnuðir merksins fengu að fara nokkrar ferðir í nammibúðina.Meðal þess sem við munum sjá í bílnum er nýjasta útgáfa E-Active Body Control kerfisins sem er með fjölstillanlegum dempurum, fimm tölvum og tuttugu skynjurum víða um bílinn. Er kerfinu ætlað að skynja hreyfingar bílsins og yfirborð vegarins þúsund sinnum á sekúndu og stilla fjöðrun og undirvagn bílsins samkvæmt því.

Meðal aksturskerfa bílsins verður svokölluð „Curve“ stilling sem að hallar bílnum eins og mótorhjóli inn í beygjurnar. Aksturskerfin verða líka tengd öryggiskerfi bílsins og geta skynjararnir meðal annars skynjað hættu á hliðarárekstri. Ef að það gerist munu demparar bílsins lyfta honum snögglega upp til að minnka hættu á að höggið nái til farþegarýmis en beinist þess í stað að undirvagni bílsins. Auk þess verður bíllinn með nýjum öryggispúða milli farþega í framsætum, og er honum ætlað að minnka hættu á að höfuð þeirra rekist saman við hliðarárekstur. Bíllinn verður með næstu kynslóð fjórhjólastýringar sem að minnkar snúningshring hans um tvo metra frá fyrri kynslóð.

Ný S-lína verður sú fyrsta með næstu kynslóð MBUX upplýsingakerfsins. Það mun geta virkað samtímis á allt að fimm skjám í bílnum í einu. Stærsti skjárinn verður 12,8 tommu OLED skjár í miðjustokki. Hann mun stýra mörgum að stjórntækjum bílsins og losa hann við 27 takka í mælaborðinu. Nýr upplýsingaskjár á framrúðu bílsins mun sýna leiðsöguupplýsingar eins og þær væru tíu metrum fyrir framan bílinn, og koma þannig í veg fyrir að notkun þess dreifi athygli ökumannsins. Myndavélar í innanrými munu geta skynjað hreyfingar farþega og ökumanns, til dæmis er nóg að ökumaður horfi á hliðarspegla til aðupp komi stillingar hans á skjánum. Loks getur nýja MBUX kerfið geym t upplýsingar um allt að sjö notendur og helstu stillingar þeirra á sætum, miðstöð, útvarpi eða ljósastillingum.

Ekki hafa verið gefnar út upplýsingar um vélbúnað S-línunnar ennþá en líklegast verða sex strokka bensín- og dísilvélar með tvinnútfærslu helst í boði. Auk þess má vænta V8 útgáfu og jafnvel V12, auk EQS rafútgáfunnar. Sá bíll fer í framleiðslu seint á næsta ári.