Toyota hefur gert nokkrar breytingar á Land Cruiser jeppanum og eru þær helstar að komin er aflmeiri 2,8 lítra dísilvél. Einnig hefur hann fengið létta andlitslyftingu og meiri búnað. Vélin er af sömu stærð og áður en hún var 174 hestöfl og með 450 Newtonmetra tog. Aflið nú er 201 hestafl og 500 Newtonmetrar og gerir það að verkum að upptakið batnar um tæpar þrjár sekúndur en það er nú 9,3 sekúndur. Aðeins verða tvær útfærslur í boði, Active og Invincible, en dýrari gerðin verður aðeins fáanleg með lengra hjólhafi og sjö sætum. Sú útgáfa fær líka meiri torfærubúnað eins og stillanlega loftfjöðrun, læst mismunadrif að aftan og akstursstillingar fyrir torfæruakstur yfir grjót.