Daimler hefur frumsýnt sjöundu kynslóð flaggskips síns S-línu á netinu. Að sögn Mercedes er næyja S-lína einfaldlega „Besti bíll í heimi“ hvorki meira né minna. Bíllinn fer í sölu í desember á þessu ári í Evrópu. S-línan er fyrsti bíll Mercedes sem byggður er á nýrri kynslóð MRA undirvagnsins. Þýðir það að von er á meiri tæknibúnaði í bílnum en við höfum séð áður, en það var ekkert lítið. Tvær útgáfur verða í boði fyrir Evrópumarkað, önnur með lengra hjólhafi. Grunngerðin er 5.179 mm að lengd sem er aukning um 54 mm. Meira fótapláss verður í nýja bílnum og farangursrýmið er 20 stærra og fer í 550 lítra. Engar Coupe eða Cabriolet útgáfur verða í boði lengur en vænta má Maybach útgáfu á seinni stigum.

Það er kominn 12,8 tommu OLED skjár í miðjustokkinn með nýja MBUX stýrikerfinu.

Ný S-lína verður með þriðja stigs sjálfkeyrslubúnað sem þýður að hann getur ekið sjálfur á hraðbrautum og í umferðarteppum. Hann mun líka geta lagt sjálfur eftir að ökumaður er farinn úr bílnum. Allar vélar bílsins við frumsýningu verða þriggla lítra línusexur með forþjöppu, tvær bensínvélar með 48V tvinnbúnaði og þrjár dísilvélar. Grunnútgáfan er S 350 d með 282 hestafla vél sem með afturhjóladrifi er 6,4 sekúndur í hundraðið. Öflugast bensínbíllinn er S 500 sem með 429 hestafla vél er 4,9 sekúndur í hundraðið. Von er á V8 vél á næsta ári með 48V tvinnbúnaði auk tengiltvinnútgáfu sem kemst 100 km á hleðslunni.