Samkeppni rafbíla er að byrja fyrir alvöru og samkeppnin hérlendis verður eftir sem áður í flokki jepplinga eða bíla með þess háttar byggingarlagi. Nýjasta viðbótin í þeim flokki er Peugeot e-2008 sem er sportlegur bíll með góðri veghæð og framúrstefnuleg hönnun hans er eins og kremið á kökuna.

Þrívíddarmælaborðið sýnir helstu upplýsingar og er laust við óþarfa.
MYNDIR: TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Það er fátt sem aðgreinir hann frá öðrum gerðum 2008 útlitslega, nema kannski nokkur e-merki á vel völdum stöðum. Sama á við innandyra, en þar ræður sama hönnun ríkjum og við erum orðin vön í Peugeot 3008 og 208. Að vísu má sjá tilbrigði eins og flottan frágang fyrir þráðlausa símahleðslu, en það er í hólfi með smekklegu loki. Kemur sér vel ef maður gleymir símanum í bílnum að hann sé ekki fyrir allra augum. Bíllinn er þægilegur og rúmgóður og tölurnar þær sömu og í öðrum gerðum hans, til að mynda er farangursrýmið það sama og í bensínbílnum eða 434 lítrar. Breiðir B og C-bitar eru þó aðeins til vansa og þá ekki bara vegna skerts útsýnis. Þegar undirritaður sem er 183 sentimetrar á hæð var búinn að stilla ökumannssæti fyrir sig, var það aðeins fyrir aftan B-bitann svo að smeygja þurfti sér fram hjá því þegar stigið var út úr bílnum. Sama má segja um C-bitan sem er svo breiður að hann nær vel fram fyrir aftursæti, og þá einnig niður við hjólaskálina.

Óhætt er að segja að e-2008 er í senn sportlegur og stílhreinn bíll sem eftir er tekið.

Peugeot e-2008 er byggður á e-CMP undirvagninum sem er sá sami og er undir litla bróðir hans Peugeot e-208 og reyndar systurbíl hans Ople Corsa-e. Það þýðir að hann er með 50 kWst rafhlöðu og sama 134 hestafla rafmótor, en hann hefur aðeins minna drægi en e-208 vegna stærðar sinnar. Hann er þægilegri að keyra en margur rafbíllinn. Fyrir það fyrsta er upptakið jafnt og gott og laust við mikil átök. Í öðru lagi virkar hann ekki eins þungur í akstri og margir rafbíla, sérstaklega á fjöðrun. Hann er semsagt frekar laus við þá dynki seim einkenna rafbíla ef ekið er yfir holu eða krappa hraðahindrun. Stýrið er mjög létt en samt frekar nákvæmt svo að það kemur ekki að sök. Þegar reynt er á bílinn í beygjum liggur hann alveg ágætlega þangað til að undirstýring gerir vart við sig, reyndar án nokkurrar viðvörunnar frá skrikvörninni.

Plássið í aftursætum er þokkalegt enda fellur lag framsæta vel að fótum en takið eftir hvað C-bitinn skagar mikið fram í opnunina.

Eins og samkeppnin er í dag á Peugeot e-2008 sér fáa keppinauta. Eins og fram kom í reynsluakstri á MG ZS EV rafbílnum er hann helsti keppinauturinn þegar kemur að stærð og verði. Að vísu er MG bíllinn töluvert ódýrari en verðið verður samt að teljast nokkuð gott, sérstaklega þegar haft er í huga hvað fæst fyrir peninginn. Þriðji keppinauturinn er svo Hyundai Kona með minni rafhlöðunni sem er 600.000 kr dýrari.

Farangursrýmið er vel hannað og aðgengilegt enda tekur það 434 lítra sem er allgott.

Kostir: Hönnun, búnaður, fjöðrun
Gallar: Breiðir B og C-bitar, undirstýrður, höfuðrými með sólþaki

Peugeot e-2008
Grunnverð:                 4.650.000 kr
Rafhlaða:                     50 kWst
Hestöfl:                       134
Tog:                             300 Newtonmetrar
Hröðun 0-100 km:      8,7 sek
Hámarkshraði:            150 km/klst
Drægi:                         320 km
Farangursrými:           434 l

Þegar búið er að fjarlægja stóra plasthlíf kemur rafmótorinn fyrir framdrifið vel í ljós.