Þá er hann loksins kominn eftir talsvert langa bið er markaðist að töfum vegna kórónavírussins. VW Golf er nú kominn á sína áttundu kynslóð en hann hefur verið við lýði síðan 1974, hvorki meira né minna. Síðasta kynslóð kom árið 2012 svo að biðin var orðin nokkur en til að stytta okkur stundir kom VW með rafdrifna útgáfu í millitíðinni. Sú er ekki raunin núna því að VW er um þessar mundir að kynna hinn nýja ID.3 sem tekur við af e-Golf. Þótt bílarnir séu ólíkir eru þeir samt merkilega líkir að nokkru leyti, eins og til dæmis stafrænt mælaborðið sem þróað var fyrir báða bílana í einu.

Vindmótsstuðull nýs Golf er aðeins 0.275 enda framendinn algjörlega endurhannaður. MYNDIR: TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Mælaborðið í nýjum Golf er heilmikil upplifun svo ekki sé meira sagt. Allt er miðað við tvo stóra upplýsingaskjái sem hægt er að stjórna með stýri eða raddskipunum. Miðjuskjárinn er 10 tommu snertiskjár en einnig eru komin tvö sett að snertitökkum báðu megin við stýrið. Stjórnar það vinstra ljósum bílsins á meðan það hægra er tengt snertiskjánum til að kveikja á miðstöðvarkerfi til að mynda. Það eina sem hefur ekki breyst í innréttingunni eru takkarnir í hurðinni en þar er all eins og áður. Það er dáldið skrýtið að sjá ekki mælir fyrir hita vélarinnar eða stöðu bensíntanks en þess í stað er tala sem sýnir hversu marga kílómetra maður á eftir á eldsneytinu. Það getur tekið smátíma að venjast uppsetningunni og hvernig snertitakkarnir virka og ekki víst hvort að það henti öllum. Persónulega fannst mér flest gott í þessu kerfi en betri helmingurinn var ekki sammála mér. Það er líka gott að iPhone notendur fá nú Apple Carplay þráðlaust gegnum blátannarbúnaðinn. Hægt er að stýra búnaðinum með röddinni líka, en aðeins á ensku og það tekur líka smástund fyrir kerfið að átta sig á því hvað verið er að segja. Það getur þó verið nóg að segja að manni sé kalt á rassinum til að kerfið kveiki á sætishitaranum.

Stafrænt mælaborðið er algerlega endurhannað og stórir skjáir allsráðandi.

Fyrir bíl í þessum stærðarflokki er gott hvað hann fer vel með ökumann. Sætin eru djúp og þægileg og armpúði milli framsæta. Það sem truflaði þó upplifunina frammí er fyrirferð á rafhlöðu undir farþegasæti sem að takmarkar fótapláss þegar sæti er aftarlega. Pláss í aftursætum er nokkuð gott, eins og í kynslóðinni á undan en aðeins þarf að smeygja fótum til að koma sér vel fyrir. Höfuðrými er vel viðunandi og það ætti að fara vel um tvo fullorða með barn á milli sín í aftursætaröðinni. Pláss í farangursrými er viðunandi og það er kostur að það er hægt að hækka gólfið. Einnig er gólfið nokkuð flatt þegar búið er að leggja niður aftursæti. Við prófuðum bílinn með 1,5 lítra bensínvélinni í mildri tvinnútgáfu. Þannig er hann 148 hestöfl og er 8,5 sekúndur í hundraðið. Það er alveg óhætt að segja að rafmótorinn gerir sigt til að gera upptakið betra í upphafi, og hjálpar einnig til á meðan bíllinn er að skipta sér. Fyrir vikið verður upptakið frísklegt en um leið átakalaust.

Fótarými í farþegasæti er takmarkað ef sæti er í öftustu stöðu.

Bíllinn er byggður á sama MQB undirvagni og sjöunda kynslóð Golf, en með nokkrum breytingum þó. Það ætti því ekki að koma á óvart að það sé margt líkt með þeim, eins og til dæmis stærðartölur. Breytingarnar lúta að útliti, vélbúnaði, innréttingu og fjöðrun. Það er samt ekkert í yfirbyggingu bílanna sem er eins. Í ódýrari gerðum Golf er bíllinn með stangarfjöðrun að aftan. Að því sögðu er hann samt einn þægilegast bíll í fjöðrun sem maður fær í þessum flokki. Óhætt er að segja að hann liggur best af öllum Golf sem undirritaður hefur prófað, og þeir eru allnokkrir. Hann virkar mjög vel í stýri og er nánast laus við undirstýringu. Hann á það þó til að losa aðeins afturhjólin með því að missa grip á innra afturhjóli þegar lagt er mikið á hann. Það gera reyndar allir Golf bílar og ekkert sem kom á óvart við það.

Fjöðrunin er eitt af aðalsmerkjum nýs VW Golf.

Volkswagen Golf hefur hingað til verið borinn saman við bíla eins og Toyota Corolla, Mazda 3 eða Ford Focus, en einnig hefur borið á því að hann sé borinn saman við dýrari samkeppni eins og BMW 1-línuna og Mercedes-Benz A-línu. Grunnverð hans er 5.490.000 kr sem er vissulega vel í lagt samanborið við samkeppnina. Ódýrastur af þeim er Ford Focus ST Line sem kostar frá 4.030.000 kr en Mazda3 kostar frá 4.250.000 kr. Líklega er mesta samkeppnin frá Toyota í formi Corolla en hún kostar frá 4.890.000 kr. BMW 1-lína er ekki í boði á Íslandi en grunnverð A-línu Benz er 5.490.000 kr eins og Golf svo greinilegt er við hvaða bíl hann ætlar að miða sig við. Hvort að hann nái þeim samanburði að öllu leyti er erfitt að segja eins víst er margt líkt með þeim í tæknibúnaði.

Það er lítið pláss eftir í vélarrýminu á bílnum með 1,5 lítra eTSI vélinni.

Kostir: Búnaður, fjöðrun, framsæti
Gallar: Fótapláss, verð

VW Golf eTSI 150
Grunnverð:                 5.490.000 kr
Rúmtak:                      1.498 rsm
Hestöfl:                       148
Hröðun 0-100 km:      8,5 sek
Hámarkshraði:            206 km/klst
Eyðsla bl ak:                4,6 l/100 km
L/B/H:                         4.284/1.789/1.456 mm
Hjólhaf:                       2.636 mm
Eigin þyngd:                1.255 kg
Farangursrými:           380 l
CO2 gildi:                    130 g/km

Farangursrými er sem fyrr 380 lítrar.