Stutt er síðan að Lucid Air rafbíllinn var frumsýndur en hann er væntanlegur á markað innan nokkurra mánaða. Tækniupplýsingar bílsins hafa vakið mikla athygli enda fáheyrðar, og má þar nefna allt að 810 km drægi og 1.080 hestöfl með tveimur rafmótorum í Air Dream Edition útgáfunni. Mun það gera bílnum kleift að komast í hundraðið á aðeins 2,5 sekúndum og er hámarkshraðinn 270 km á klst. Hefur Lucid Air háð einvígi við Tesla Model S Plaid undanfarinn mánuð um hraðasta hringinn á Laguna Seca brautinni. Fyrst náði Lucid Air besta tíma brautarinnar með tímanum 1 mín 41 sek en tjúnuð útgáfa Tesla Model 3 bætti þann tíma fyrir mánuði og fór á 1 mín 35,79 sek. Tesla Model S Plaid bætti svo um betur fyrir skömmu og náði 1 mín og 30 sek en við prófanir í vikunni náði Lucid Air tímanum 1 mín 31,3 sek sem er ansi nálægt tíma Tesla.

Rafhlaðan er 113 kWst og mun geta hlaðið bílinn með hraða sem ekki hefur sést áður. Á hraðhleðslustöð mun hann geta hlaðið 32 km af drægi á mínútu sem er 480 km á aðeins 20 mínútum. Það er hraðasta hleðsla sem sést hefur í fjöldaframleiddum rafbíl hingað til. Um mitt næsta ár kemur Air Grand Touring útgáfan með enn meira drægi, eða 832 km en hestöflin fara niður í 800 talsins. Grunnútgáfan mun kallast Air Touring og verður 620 hestöfl og með 650 km drægi.