Næsti bíll sem búast má við frá Volo er ný 40-lína sem einnig verður rafdrifin. Hætt var við framleiðslu eldri kynslóðar V40 í fyrra en hann byggði á eldri undirvagni sem upphaflega kom frá Ford. Nýr V40 mun hins vegar koma á sama CMA undirvagni og XC40 sem þýðir að hann verður bæði stærri og getur notað sömu þriððja og fjögurra strokka vélar, og það sem er meira um vert nýju tengiltvinnútgáfuna með 1,5 lítra vélinni. Einnig þýðir það að möguleiki verður á hreinum V40 rafbíl. Að sögn Lex Kerssemakers, forstjóra Volvo í Evrópu er engin leið að kynna nýja bíla lengur án þess að þeir bjóði uppá að vera rafmagnaðir. „Varðandi V4 viljum við koma með eitthvað meira skapandi. Við þurfum að hækka bílinn til að geta komið fyrir rafhlöðum og því er nokkurs konar jepplingslag leiðin.“

Orðrómur er uppi um að Volvo sé að þróa nýtt flaggskip merkisins sem verður stærri lúxusbíll heldur en Volvo XC90 og kynntur verður árið 2022. Hugmyndin er að hafa bíl sem getur keppt við BMW X7 og Mercedes GLS en hingað til hefur SPA undirvagninn sem er undir XC90 ekki boðið upp á þann möguleika. Með tilkomu nýrrar útgáfu undirvagsnins, sem kallast SAP2 mun Volvo geta smíðað bíl sem er allt að 5,5 metra langur. Þriðji bíll Polestar, sem er stór rafjepplingur mun einmitt nota sama undirvagn. Þessi nýi bíll Volvo hefur þegar fengið framleiðslunafnið V616, en 6 stendur fyrir stærsta módelið, 1 fyrir fyrstu kynslóð og seinna 6 fyrir að um jepplingsform sé að ræða. Búast má við að bíllinn verði 300 mm lengri en Volvo XC90 og þá jafnvel stærri en BMW X7. Hann verður sjö sæta og með meira hjólhaf en við höfum áður séð frá Volvo. Einnig má búast við að bíllinn komi í öflugum tvinnútgáfum, og þá líka sem tengiltvinnbíll og hreinn rafbíll. Að sögn Hakan Samuelsson, forstjóra Volvo verða helmingur Volvo bíla rafdrifnir árið 2025.