Það er svo sem ekkert leyndarmál að von er á stórum BMW X8 á næstunni. Þýska framleiðandanum hefur samt gengið vel að halda honum undir leyndarhjúp alveg þar til fyrir nokkrum dögum þegar fyrstu njósnamyndir náðust af herlegheitunum. Um dýrasta bíl í BMW-línunni verður að ræða þegar hann kemur á markað. BMW virðist fara sömu leið með X7 og X8 eins og gert var með X1 og X2, þar sem að X2 er sportlegri útgáfa af sama bíl í grunninn. Eins og sést vel á myndinni er þakið lægra en á X7 og hallar meira niður að aftan. Einn af keppinautum bílsins verður Porsche Cayenne og þá líka Cayenne Coupe miðað við þetta. BMW sótti um einkaleyfi á X8 M um daginn sem gefur til kynna að öflugri útgáfa sé á leiðinni líka. Í BMW X5 M er 616 hestafla V8 vél sem líklegt er að fari í þennan líka. Þegar myndir er skoðuð vel sést að á bílstjórahurðinni er miði sem segir „Hybrid Test Vehicle“ eða prófunartvinnbíll. Þar sem að X8 byggir á sama CLAR undirvagni og X5 og X7 er mjög líklegt að hann verði boðinn í svipaðri tengiltvinnútgáfu og X5 xDrive45e. Í honum er þriggja lítra línuvél ásamt 111 hestafla rafmótor sem samtals skila 394 hestöflum. Með 24 kWst rafhlöðu er bíllinn með um 80 km drægi.