Vikan hefur verið góð fyrir Volkswagen Group þegar kemur að verðlaunaafhendingum. Tilkynnt var um tvö bílaverðlaun á þriðjudag og voru bílar frá VW Group þar í efstu sætum. Skoda Oktavía var valinn bíll ársins hjá Auto Express og VW Golf og VW ID.3 unnu tvo flokka af fimm í vali á Bíl ársins í Þýskalandi. VW Golf vann flokk minni fjölskyldubíla á meðan VW ID.3 vann flokk stærri fjölskyldubíla. Í lúxusflokki var það nýr Polestar 2 sem vann og í flokki sportbíla BMW Alpina B3. Í nýorkuflokki var það svo Honda e sem stóð uppi sem sigurverari. Í Þýskalandi eru það 18 blaðamenn frá jafn mörgum miðlum sem sjá um valið, en ekki hefur verið tilkynnt um Bíl ársins 2021 þar ennþá.

Vinningshafar í 25 flokkum

Fyrir utan að velja Bíl ársins 2020 velur Auto Express vinningshafa í 25 flokkum sem suma hverja er óþarfi að telja upp hérna, þar sem að bílarnir eru ekki sledir hérlendis eða ekki boðnir af umboðunum. Af þeim flokkum sem eru marktækir hérlendis má nefna borgarbíl ársins sem var VW Up, smábíl ársins, sem var Renault Clio og minni fjölskyldubíl ársins sem var að sjálfsögðu Skoda Oktavía. Í flokknum stærri fjölskyldubílar var það Skoda Superb sem vann og í jepplingaflokki var það Renault Captur vinningshafinn í minni gerðum og Ford Kuga í þeim stærri. Rafbílar ársins vou Renault Zoe í minni og ódýrari gerðum og Tesla Model 3 í stærri gerðum. Pallbíll ársins var svo Ford Ranger. Valið á Bíl ársins á Íslandi hefur verið flutt til vorsins 2021 vegna kórónafaraldursins, og þeirri seinkun sem hann hefur valdið á komu nýrra bíla til landsins.