Amazon hefur frumsýnt nýjan rafdrifinn sendibíl sem hannaður var í samstarfi við Rivian rafbílaframleiðandann. Rivian mun framleiða nýja bílinn fyrir Amazon í 10.000 eintökum til að byrja með. Verða bílarnir tilbúnir fyrir 2022 en áætlað er að byggja alls 90.000 slíka fyrir árið 2030. Er verðmæti þessa samnings áætlað í kringum 5 milljarða dollara. Ekki hefur verið tilkynnt um tæknileg atriði nýja bílsins en sagt hefur verið frá nokkrum fídusum hans eins og 360 gráðu myndavélabúnaði sem er tengdur við upplýsingakerfi bílsins. Einnig verður fullkomin umferðaraðstoð í bílnum. Að sjálfsögðu verður bíllinn með Amazon Alexa raddstýribúnaði og verður hægt að nota hann til að stýra leiðsögukerfi og fá upplýsingar um veður framundan. Á ameríska vísu verður afturhurðin svokölluð rúlluhurð og flutningsrýmið með sérstöku hillukerfi. Hjól bílsins er eins nálægt hornum hans og hægt er til að auka rými innandyra en það hjálpar líka bílnum við akstur í þrengri aðstæðum. Amazon keypti í febrúar síðastliðnum hlutabréf í Rivina fyrir 700 milljónir dollara en Ford hefur einnig fjárfest í Rivina með það fyrir augum að eiga samstarf um fleiri rafdrfin farartæki.