Hummer nafnið var formlega endurvakið aðfararnótt miðvikudagsins í Bandaríkjunum en þá frumsýndi GMC hinn nýja Hummer EV. Bíllinn mun bjóða uppá fordæmalausa torfærugetu og einstaka aksturseiginleika, eins og segir í fréttatilkynningu frá GMC.

Hummer nafnið kom fyrst fyrir almenningssjónir árið 1992 með herútgáfu jeppans sem kallaður var Humvee. Fyrsta útgáfan var byggð á þeim jeppa og var byggð samkvæmt hergagnastöðlum og seld af AM General. Seinni tvær kynslóðirnar, H2 og H3 voru hins vegar byggðar eftir að General Motors keyptu merkið og voru byggðar á undirvögnum annarra GM bíla eins og Chevrolet 2500 pallbílnum. Framleiðslu Hummer var hætt árið 2009 en nú er þessi nýja útgáfa 100% rafdrifin. Er bílnum ætlað að keppa við Tesla Cybertruck pallbílinn og þess vegna verður hann einnig boðinn sem pallbíll.

Hummer EV mun nota nýja Ultium driflínuna frá GM sem samanstendur af þremur rafmótorum í tveimur drifum. Að sögn talsmanna GM er áætlað að hún skili 986 hestöflum og 15.592 Newtonmetra togi. Þessi háa tala fyrir tog er líklega fengin með mælingu gegnum drif bílsins og er líklegri rauntala nálægt 1.400 Newtonmetrum. Mun hröðun bílsins í 100 km hraða gerast á um það bil þremur sekúndum gegnum e4WD fjórhjólakerfið. Stærð rafhlöðunnar hefur ekki verið gefin upp en að sögn GM er drægið 563 km. Rafkerfið er 800 V og hægt að hlaða á 350 kW.

Torfærugetan verður sér á parti og verður bíllinn með loftpúðafjöðrun sem getur hækkað bílinn um 15 sentimetra. Hummer EV kemur frá verksmiðju á 35 tommu dekkjum en auðvelt er að setja undir hann 37 tommu dekk án mikilla breytinga. Undirvagninn er með stálplötum til að vernda rafhlöðuna. Drifið verður með svokallaðri krabbastillingu sem gerir bílnum kleift að færa sig til hliðar á mjög litlum hraða. 18 myndavélar verða á bílnum og einnig undir honum til að auðvelda akstur við mjög erfiðar aðstæður. Super Cruise 8 sjálfkeyrslubúnaðurinn verður í bílnum sem gerir honum kleyft að aka sjálfur eftir ákveðnum vegum og að skipta sjálfur um akrein. Búast má við fleiri útgáfum af Hummer í kjölfar þessa bíls en Hummer EV mun fara í framleiðslu seint á næsta ári og mun sala á honum hefjast 2022.