Svokölluð fyrirframleiðsluútgáfa Mercedes-Benz C-línu náðist á mynd á dögunum með litlu dulargervi. Gefa myndirnar nokkuð góða mynd hvernig bíllinn mun líta út þegar hann kemur á markað á næsta ári. C-línan hefur þurft að þola nokkuð mikinn samdrátt í sölu en nýi bíllinn mun fá talsvert af tækninni úr væntanlegri S-línu til að bæta úr því. Þótt hliðarlína bílsins sé svipuð og núverandi kynslóðar er bíllinn með lægri framenda og hvassari ljósum svo búast má við nýjum svip á bílnum. Það að hann sé byggður á nýja MRA undirvagninum þýðir að hann mun koma í nýjum tvinnútgáfum og hafa sjálkeyrandi tækni. AMG útgáfur munu koma aftur í C-línunni en í stað V8 véla verður tveggja lítra bensínvél og rafmótorar sem samtals skila bílnum meira en 500 hestöflum. Fjöðrunin verður af fullkomnustu gerð með tvöfaldri klafafjöðrun að framan og fjölliða að aftan og verður stillanleg vökvafjöðun líklegast boðin sem staðalbúnaður á flestum mörkuðum. Sami undirvagn og fjöðrun verður þá í boði í nýjum GLC og GLC Coupé. Meira að segja verður svokölluð All Terrain langbaksútgáfa í boði í nýrri C-línu til að keppa við Audi A4 Allroad.