Bílaprófari Billinn.is er nógu gamall í hettunni til að muna eftir því hvernig var að prófa fyrsta Kia Sorento jeppann sem kom á markað árið 2002. Þá var Kia umboðið til húsa í Flatahrauni og það er enn mjög skýrt í minningunni hvað þessi bíll vakti undrun og athygli undirritaðs. Það var greinilegt að litli kóreski framleiðandinn væri kominn með eitthvað nýtt og betra sem myndi setja mark sitt á framtíðina. Kia Sorento er nú kominn á sína fjórðu kynslóð og þótt sá fyrsti hafi verið góður er sá nýi ljósárum á undan í hönnun og akstri.

KIA_11.jpg
Kia Sorento er tæpir fimm metrar á lengd og hjólhafið 2.815 mm svo að hurðir verða bæði stórar og mjög aðgengilegar. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Bíllinn er með nýju 2,2 lítra dísilvélina sem hefur verið endurhönnuð. Í stað blokkar úr járni er nú komin blokk úr áli og vélin er tæpum 20 kílóum léttari. Aflið hefur líka aukist í 202 hestöfl og togið í 440 newtonmetra. Til að setja rúsínuna í pylsuendann er komin ný átta þrepa sjálfskipting með tvöfaldri kúplingu sem Kia segir að spari allt að 15% í eyðslu. Óhætt er að hrósa nýjum Sorento fyrir þýðan gang og skiptingar. Hann er frískur af stað án þess að vera með einhvern hávaða og skiptingin er fljót að virka. Sorento er með sérlega þægileg fjöðrun sem ræður vel við flest. Að framan er hann á McPherson en fjölliða fjöðrun er að aftan. Fyrir vikið finnur maður ekki mikið fyrir hraðahindrunum þótt ekið sé yfir þær án þess að hægja á sér. Einnig virkar hann stöðugur í akstri á möl og grófum vegi. Þegar reynt er á hann á malbiki leggst aðeins í beygjurnar og losar stundum afturhjól, enda ekki við öðru að búast í bíl sem vegur tvö tonn.

Vélin er með nýrri álblokk og forþjöppu og skilar nú 202 hestöflum.

Það er gott að setjast inn í Sorento og þrátt fyrir að vera stór bíll þarf ekki að stíga upp í hann. Það vekur athygli að maður situr frekar lágt í bílnum en hönnun hans að innan er líka þannig að hún gerir ráð fyrir því. Mælaborð er ekki með háum brúnum og maður sér vel út auk þess að njóta góðs rýmis til hliða og upp. Auðvelt er að stilla sæti sem eru stór og þægileg. Mælaborðið er fallega hannað innrammað díóðuljósum með fiskabeinamunstri og stórum upplýsingaskjáum. Skjárinn hægra megin er átta tommur og er frekar lágur og breiður svo að það þarf aðeins að teygja sig til að nota hann. Eins mætti notkun hans vera hraðvirkari en það var alltaf eins og maður þurfti að bíða smástund eftir því að hann framkvæmdi það sem maður vildi. Vert er að minnast á einn fídus í bílnum sem að eykur öryggi til muna. Þegar kveikt er á stefnuljósi kviknar á myndavél sem tekur yfir viðkomandi hlið mælaborðsins og sýnir inn á blinda svæðið. Auk þess varar bíllinn við með pípi og með því að taka aðeins í stýrið ef einhver er á svæðinu sem færa á bílinn í. Mér fannst þessi fídus mjög góður en stundum of næmur og í eitt skipti varaði hann mig við bíl í þarnæstu akrein.

Þótt búið sé að stilla framsæti frekar aftarlega er enn nóg pláss fyrir fætur í miðjusætaröðinni.

En aftur að rýminu í bílnum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að koma fyrir lausum hlutum því nóg er af hólfum og hirslum í Sorento. Auk þess er nóg pláss í hurðum og miðjustokki. Plássið verður þó fyrst gott þegar komið er í miðjusætaröðina. Hurðirnar eru stórar sem auðveldar aðgengi og fótapláss er svo gott að enginn ætti að vera í vandræðum með að nota aftursætin. Auk þess er sætaröðin á sleða svo hægt er að auka eða minnka pláss eftir því hvernig raðast í bílinn. Einmitt þess vegna getur jafnvel fullorðinn komið sér þægilega fyrir í þriðju sætaröðinni. Það er auðvelt að komast út þar sem takkar til að fella niður miðjusætin eru ofan á sætisbakinu og það fellur vel niður, auk þess sem sætið rennur fram á sleðanum. Það er einfalt að setja upp eða leggja niður öftustu sætaröð með því einu að toga í belti aftan á sætisbakinu. Með öftustu sætin niðri er plássið mjög gott eða 821 lítri og þrátt fyrir að búið sé að koma henni fyrir eru samt gott pláss eftir fyrir léttan farangur.

Miðjusætaröð fellur aðeins niður 60/40 en auðvelt er að komast út úr aftari sætaröðinni.

Grunnverð Kia Sorento er 9.290.777 krónur en í Luxuryútfærslu 9.890.777 krónur. Helstu keppinautar hans hérlendis eru Ford Explorer og væntanlegur Toyota Highlander en verð er ekki komið á þann bíl ennþá. Ford Explorer er nú aðeins boðinn í tengiltvinnútgáfu og kostar þannig frá 11.990.000 krónum og þá mjög vel búinn. Ekki er komið verð á tengiltvinnútgáfu Kia Sorento þegar þetta er skrifað en búast má við að hún verði samkeppnishæf í verði.

Kostir: Fjöðrun, rými, hljóðlátur
Gallar: Stressuð akreinavörn, hægvirkur upplýsingaskjár

Kia Sorento
Grunnverð: 9.290.777 kr
Vél: 2,2 dísil
Hestöfl: 202
Tog: 440 Newtonmetrar
Eyðsla bl. ak: 6 l/100 km
Hröðun 0-100 km: 9,2 sek
Hámarkshraði: 205 km
CO2 g/100 km: 150
Eigin þyngd: 1.819 kg
Dráttargeta: 2.500 kg
L/B/H: 4.810/1.900/1.695 mm
Hjólhaf: 2.815 mm
Veghæð: 174 mm
Farangursrými: 821 lítri

Þegar kveikt er á stefnuljósi kviknar á myndavél sem sýnir inn í blinda svæðið við hliðina á bílnum.