Óhætt er að segja að biðin eftir ID.3 rafbílnum hafi verið löng en sala á honum hefur tafist fyrir margra hluta sakir. Hugbúnaður bílsins glímdi við vandamál í fyrstu útfærslum hans sem að seinkar tilkomu mikilvægra þátta eins og Apple Carplay og Android Auto og COVID-19 faraldurinn hefur seinkað afhendingu bílsins og þá sér í lagi til jaðarsvæða eins og Íslands. Þess vegna voru það gleðifréttir þegar fyrsta stóra sendingin barst hingað til lands í September mánuði.

Mælaborðið er vel staðsett og þótt það sé ekki stórt er það nóg til að sjá það helsta. Takkaborð vinstra megin er þó frekar langt frá ökumanni. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Volkswagen ID.3 ber þess greinilega merki að hafa verið langan tíma í hönnunarferli því VW vonar að hér sé kominn bíllinn sem leysir Nissan Leaf af hólmi sem mest seldi rafbíllinn á heimsmarkaði. ID.3 kemur inná markað rafbíla þar sem þegar er mjög mikil samkeppni hérlendis. Nissan Leaf er augljós samkeppnisaðili enda svipaður að stærð en hann mun einnig keppa við bíla eins og Tesla Model 3 og Kia Niro svo eitthvað sé nefnt. Það sem að ID.3 hefur fram yfir marga er að hann hefur verið hannaður til að mæta þörfum margra þegar kemur að rafbíl og hefur því möguleika á að verða sterkur í sölu. Hann leysir VW e-Golf af og er með 129 mm lengra hjólhafi sem gerir hann mun rúmbetri. Hann er 23 mm styttri en e-Golf en það sem skiptir meira máli er að hann er 20 mm breiðari og 96 mm hærri. Fyrir vikið er hann bill sem gott er að umgangast, hvort sem er fyrir farþega frammí eða afturí.

Gott höfuðpláss er aftur í og fótapláss þokkalegt en best er þó aðgengið um stórar dyrnar.

Innrétting bílsins er kafli út af fyrir sig en hann er með nýja stafræna mælaborðið og innréttinguna sem við sáum first í áttundu kynslóð VW Golf fyrir skömmu. Það má deila um hvort að sniðugt sé að setja stjórnbúnað margra þátta í snetriskjá líkt og vinsælt er hjá mörgum framleiðendum í dag. Á Íslandi eru meira að segja lög sem banna notkun snjalltækja eða raftækja án handfrjáls búnaðar. Að því sögðu er þó þægilegt að nota búnaðinn í ID.3 því hann er fljótvirkur í notkun en stærri skjár hefði samt komið sér vel.

Bíllinn er gáfaður og hugsar fyrir mann. Áður en maður er sestur inní bílinn er hann búinn að setja sig sjálfur í gang og farinn að hita bílinn. Ef aðeins bílstjóri er sestur inní bílinn hitar hann bílinn aðeins þeim megin til að spara rafmagnið. Bíllinn les umferðarmerki og helstu akreinar og gatnamót framundan og hagar akstrinum samkvæmt því. Til dæmis hægir hann sjálfur á bílnum ef ekið er fram á merki sem sýnir lækkaðan hámarkshraða ef að ökumaður er ekki lengur með fótinn á gjöfinni.

Farangursrými tekur 385 lítra og hægt er að hækka gólfið sem gerir það þægilegra við hleðslu. Fella má sæti 60/40 og skíðaluga er fyrir lengri hluti.

Það er nóg pláss frammí ID.3 og gildir þá einu hvort um höfuðrými eða innstig sé að ræða. Sama má segja um hólf í framsætum en nóg pláss er fyrir alla hluti. Sætin eru frekar stór og þægileg en mattu veita meiri hliðarstuðning þegar bílnum er hent í beygjurnar. Auðvelt er að stilla sætin í kjörstöðu en það hefði mátt hafa hæðarstillingu á öryggisbelti svo notkun þess væri þægilegri. Flesti í mælaborði er vel staðsett fyrir utan takkaborð vinstra megin sem að stýrir þáttum eins og ljósum og hita í fram- eða afturrúðu. Það þarf að teygja sig vel í það sem er þóþægilegr við akstur. Eins hefði mátt hafa opnun á hurðalæsingu inní bílnum því það er bagalegt að þurfa að hleypa farþega inn með því að taka í hurðarhúninn. Útsýni úr bílnum er frekar gott þrátt fyrir tvöfalda bita við framrúðu og útsýni er gott aftur. Höfuðrými er líka gott í aftursætum og fótarými er alveg þokkalegt. Kostur er að flötu gólfi sem að miðjusætisfarþeginn mun kunna að meta. Farangursrými er í betra lagi og þótt aðeins sé hægt að fella sæti 60/40 er einnig svokölluð skíðalúga fyrir lengri hluti. Hægt er að stilla hæðina á gólfinu sem gerir lestun þægilegri. Í stuttu máli fær bíllinn góðan plús fyrir aðgengi.

Bíllinn er frekar snubbóttur að framan enda engin þörf á öðrum búnaði þar en áfyllingu fyrir rúðu- og hemlavökva ásamt loftkælingu.

Þrátt fyrir sín tæplega 1.800 kíló er þægilegt að keyra bílinn. Hann er sérstaklega hljóðlátur og þýður og frekar snöggur af stað án þess að það sé með of miklu togi í byrjun. Að vísu er hann ekki eins snöggur að taka við sér þegar hann er á ferðinni og Tesla Model 3 en aflið er nægilegt og vel viðunandi. Þótt að blaðamaður hafi haft bílinn í 4-5 daga og notað hann talsvert, meira að setja í eina sumarbústaðarferð, þurfti ekki að hlaða bílinn á meðan reynsluakstrinum stóð. Reyndar voru aðeins 26 kílómetrar eftir af drægi bílsins en mælirinn er nákvæmur og óhætt að treysta vel á hann. Fjöðrun bílsins er nokkuð góð miðað við rafbíl. Hún er frekar stinn eins og búast mátti við fyrir svona þungan bíl en samt að mestu laus við dynki. Auðvitað er fjöðrunin betri í VW Golf til að mynda en hún ræður samt vel við allan borgarakstur og leggur bíllinn ekki mikið til hliðana í beygjum.

Auðvelt er að nota hleðsluna en kapall fyrir bæði AC-hleðslu og heimainnstungu fylgir bílnum.

Óhætt er að segja að meira að segja í grunnútfærslu fær maður vel búinn bíl í ID.3. Nægir að nefna 18 tommu álfelgur, lyklalaust aðgengi, díóðulýsingu, díóðuljós, stæðaaðstoð, raddstýringu og sjálfvirk miðstöð með loftkælingu. Nissan Leaf kostar frá 4.890.000 kr í sinni ódýrustu útfærslu en segja má að N-Connecta sé nær honum í búnaði en hann kostar frá 5.090.000 kr. Sama er uppi á teningnum í Kia Niro sem kostar frá 4.890.777 kr. Til að hann nái ID.3 í grunnbúnaði þarf að velja Style útfærsluna sem kostar frá 5.290.777 kr. Ekki verður hjá komist að taka Tesla Model 3 inní þennan samanburð þótt um öðruvísi bíl sé að ræða. Grunnútfærsla hans kostar frá 5.423.335 kr. Það er því sanngjarnt að segja að Volkswagen ID.3 sé vel samkeppnishæfur í verði miðað við helstu keppinauta.

Volkswagen ID.3 tekur sig vel út á 19 tommu felgunum sem eru staðalbúnaður frá VW en einnig er hægt að fá hann á 18 tommu álfelgum.

Kostir: Aðgengi, hljóðlátur, drægi
Gallar: Staðsetning vinstri rofa, engin opnun á hurðalæsingu

VW ID.3 58 kWst
Grunnverð:                 5.190.000 kr
Hestöfl:                       204
Tog:                             310 Newtonmetrar
Hröðun 0-100 km:      7,3 sek.
Hámarkshraði:            160 km/klst
Drægi:                         420 km
Notkun:                       15,5 kWst
Hleðslugeta AC/DC:    11 kW/100 kW
Hleðslutími DC 80%:   30 mín
Hleðslutími. AC:          6 klst 15 mín
Farangursrými:           385 lítrar
L/B/H:                         4.261/1.809/1.568 mm
Hjólhaf:                       2.771 mm
Eigin þyngd:                1.794 kg